Íslenska fyrirtækið DTE er eitt af þeim fyrirtækjum sem fékk háan Accelerator styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins í sumar. Styrkurinn hljóðar uppá 2,45 milljónir evra eða um 350 milljónir íslenskra króna. Þetta er í annað sinn sem fyrirtækið fær Accelerator styrk en þann fyrri, uppá 1,4 milljónir evra, fékk fyrirtækið árið 2018. Í bæði skiptin var það okkar fólk hjá Inspiralia sem aðstoðaði DTE við að sækja um styrkinn. Með styrknum í sumar fylgir vilyrði um „þolinmóða“ fjárfestingu upp á allt að 7 milljónir evra frá Evrópska fjárfestingabankanum og jafnvel fleiri evrópskum fjárfestum. Við hjá Evris/Inspiralia óskum DTE hjartanlega til hamingu með þennan stórkostlega árangur en það er fyrsta íslenska fyrirtækið til að fá tvo Accelerator styrki frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins.
DTE vinnur að því að þróa búnað sem safnar upplýsingum og greinir, í rauntíma, fyrir ýmiskonar málmframleiðendur. Þessi styrkur núna er fyrir hugbúnaðarlausn sem vinnur úr rauntímagögnunum til að bæta ákvarðanatöku í framleiðslunni. Nánari upplýsingar um DTE, styrkinn frá Evrópusambandinu og ýmislegt fleira má finna hér: https://dte.ai/